Bleiki pardusinn er röð gamanmynda um franska rannsóknarlögreglumanninn Jacques Clouseau. Fyrsta myndin í röðinni var Bleiki pardusinn árið 1963. Peter Sellers lék þar aðalhlutverkið sem síðan hefur fyrst og fremst tengst honum þótt aðrir leikarar hafi spreytt sig á því. Flestar myndirnar voru í leikstjórn Blake Edwards og með tónlist eftir Henry Mancini.
Nafn myndanna er dregið af gimsteininum sem söguþráður fyrstu myndarinnar snýst um.
Bleikur pardus kemur fyrir ásamt Clouseau í teiknimynd í titilatriði hverrar myndar við undirleik tónlistar Mancinis, nema í Skot í myrkri og Clouseau lögregluforingi. Persónan var teiknuð af Hawley Pratt fyrir DePatie-Freleng Enterprises. Þessi persóna fékk brátt sína eigin teiknimyndaþáttaröð fyrir kvikmyndahús. Bandaríski teiknimyndasagnfræðingurinn Jerry Beck telur bleika pardusinn vera síðustu mikilvægu teiknimyndaseríuna fyrir kvikmyndahús, en á seinni hluta 7. áratugarins fluttust teiknaðar stuttmyndir úr kvikmyndahúsum í sjónvarpið.