Borg er þéttbýli sem greinist frá bæ, þorpi eða hverfi vegna stærðar, þéttleika byggðar, mikilvægis eða lagastöðu. Engin almenn skilgreining er til á því hversu fjölmenn borg þarf að vera að lágmarki,[1][2] en oft er miðað við 100.000 íbúa á samfelldu svæði þar sem þéttleiki byggðar er meiri en 1500 íbúar á ferkílómetra.[3] Þetta er samt alls ekki algilt viðmið og fjölmörg dæmi um þéttbýli skilgreind sem borgir um víða veröld sem eru miklu fámennari. Stundum eru borgir skilgreindar sem stórt þéttbýli með eigin stjórnsýslu þar sem flestir íbúar fást við önnur störf en landbúnaðarstörf.[4] Nútímaborgir þurfa umtalsverða innviði til að geta hýst margt fólk á litlu svæði. Til slíkra innviða teljast löggæsla, vatnsveita, fráveita, sorphirða, samgöngukerfi og samskiptakerfi.[5][6] Flestar borgir hafa miðbæjarkjarna, en svefnborgir eru að meira eða minna leyti byggðar upp sem úthverfi annarrar aðliggjandi borgar. Þéttleikinn býður upp á ýmsa kosti fyrir dagleg samskipti, stjórnsýslu og hagkvæmni í framleiðslu og þjónustu; en felur líka í sér áskoranir fyrir öryggi, lýðheilsu, félagsþjónustu og umhverfi.
Lengst af í mannkynssögunni voru borgarbúar aðeins lítið brot heildarfjölda íbúa í hverju landi. Með iðnbyltingunni á 19. öld hófst hröð þéttbýlisvæðing sem smám saman hefur breiðst út um allan heim. Nú, tveimur öldum síðar, býr yfir helmingur jarðarbúa í þéttbýli, sem leiðir af sér áður óþekktar hnattrænar áskoranir.[7][8][9][10][11] Í dag eru borgir oft hlutar stærri þéttbýlissvæða eða stórborgarsvæða þar sem borg eða borgir og margir samliggjandi minni bæir mynda samfellt atvinnu- og þjónustusvæði. Á tímum hnattvæðingar mynda þessar borgir svo tengslanet og eiga í samkeppni sem nær út fyrir staðbundið samhengi þeirra. Þetta skapar hnattrænar áskoranir sem snerta sjálfbæra þróun, loftslagsbreytingar og hnattræna heilsu. Vegna þessara áskorana er talið mikilvægt að fjárfesta í þróun sjálfbærra borga þar sem stærðarhagkvæmnin er nýtt til að draga úr vistspori íbúa. Þéttbyggð borg er stefna í borgarskipulagi sem gengur út á þetta,[12][13][14] en auknu þéttbýli fylgja líka hætta á myndun borgarhitahólma, mengunarálag og álag á vatnsból.
Önnur mikilvæg einkenni borga eru staða þeirra sem höfuðborgir og tiltölulega löng samfelld búseta. Höfuðborgir, eins og Aþena, Beijing, Djakarta, Kúala Lúmpúr, London, Maníla, Mexíkóborg, Moskva, Naíróbí, Nýja-Delí, París, Róm, Seúl, Singapúr, Tókýó og Washington-borg eru bæði andlit viðkomandi ríkja og mikilvægur hluti af sjálfsmynd viðkomandi þjóða.[15] Sögulegar höfuðborgir, eins og Kýótó, Yogyakarta og Xi'an, halda oft mikilvægi sínu þótt þær hafi ekki lengur stöðu höfuðborgar. Jerúsalem, Mekka, Varanasi, Ayodhya, Haridwar og Prayagraj eru dæmi um trúarlegar höfuðborgir, sem hafa sérstaka stöðu innan tiltekinna trúarbragða.