Botsvana

Lýðveldið Botsvana
Lefatshe la Botswana
Fáni Botsvana Skjaldarmerki Botsvana
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Pula (tswana)
Regn
Þjóðsöngur:
Fatshe leno la rona
Staðsetning Botsvana
Höfuðborg Gaboróne
Opinbert tungumál setsvana og enska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Duma Boko
Sjálfstæði
 • frá Bretlandi 30. september, 1966 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
47. sæti
581.730 km²
2,7
Mannfjöldi
 • Samtals (2018)
 • Þéttleiki byggðar
145. sæti
2.254.068
3,7/km²
VLF (KMJ) áætl. 2021
 • Samtals 43,389 millj. dala (120. sæti)
 • Á mann 18.113 dalir (99. sæti)
VÞL (2019) 0.735 (100. sæti)
Gjaldmiðill pula (BWP)
Tímabelti UTC+2
Þjóðarlén .bw
Landsnúmer +267

Botsvana er landlukt land í sunnanverðri Afríku með landamæri að Suður-Afríku í suðri, Namibíu í vestri, Sambíu í norðri og Simbabve í norðaustri. Kazungula-brúin tengir Botsvana við Sambíu yfir Sambesífljótið.[1] Botsvana er flatlent land og Kalaharíeyðimörkin þekur 70% þess.

Íbúar Botsvana er um 2,3 milljónir og landið er eitt af þeim dreifbýlustu í heimi. Rúmlega 11% þjóðarinnar búa í höfuðborginni, Gaboróne. Landið var áður eitt af þeim fátækustu í heimi, en hefur síðan breyst í miðtekjuland með hratt vaxandi efnahag.[2]

Nútímamaðurinn settist að í Botsvana fyrir um 200.000 árum. Tsvanar eru afkomendur bantúmælandi þjóðflokka sem fluttust suður á bóginn til Botsvana um 600 e.o.t. og lifðu sem hirðingjar í ættbálkasamfélögum. Árið 1885 gerði Breska heimsveldið landið að verndarsvæðinu Bechuanalandi. Upphaflega ætluðu Bretar sér að leggja landið undir Ródesíu eða Suður-Afríku, en andstaða Tsvana leiddi til þess að það var áfram undir breskri stjórn þar til það varð sjálfstætt ríki innan Breska samveldisins 30. september 1966.[3] Síðan þá hefur fulltrúalýðræði ríkt í landinu sem hefur óslitna hefð frjálsra kosninga og lægstu spillingarvísitölu meðal Afríkulanda frá 1998.[4]

Efnahagslífið er nátengt Suður-Afríku og byggist aðallega á nautgriparækt og námagreftri, einkum demantanámum, auk ferðaþjónustu. Verg landsframleiðsla á mann með kaupmáttarjöfnuði er 18.113 dalir, sem er með því hæsta sem gerist í Afríku.[5] Þetta gerir það að verkum að lífsgæði í Botsvana eru tiltölulega mikil og landið er efsta landið í Afríku sunnan Sahara á lista yfir lönd eftir vísitölu um þróun lífsgæða.[6]

Botsvana á aðild að Afríkusambandinu, Þróunarbandalagi sunnanverðrar Afríku, Breska samveldinu og Sameinuðu þjóðunum. Íbúar eru flestir kristnir mótmælendur. Landið glímir við heilbrigðisvandamál sem stafa af því að einn af hverjum fimm íbúum er með HIV.

  1. Darwa, P. Opoku (2011). Kazungula Bridge Project (PDF). African Development Fund. bls. Appendix IV. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 14 nóvember 2012. Sótt 4 maí 2012.
  2. Maundeni, Zibani; Mpabanga, Dorothy; Mfundisi, Adam (1 janúar 2007). „Consolidating Democratic Governance in Southern Africa : Botswana“. Africa Portal. Sótt 28 maí 2020.
  3. „Bechuanaland was the former name of Botswana“. generalknowledgefacts.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. mars 2015. Sótt 20 febrúar 2018.
  4. „overview of CPI indices“. Transparency International. Afrit af uppruna á 8 janúar 2018. Sótt 8 janúar 2018.
  5. „Botswana“. The World Factbook. Central Intelligence Agency. 2014. Sótt 16 apríl 2014.
  6. Gross national income (GNI) – Nations Online Project Geymt 19 febrúar 2009 í Wayback Machine. Nationsonline.org. Retrieved on 27 October 2016.

From Wikipedia, the free encyclopedia · View on Wikipedia

Developed by Nelliwinne