Clement Richard Attlee | |
---|---|
Forsætisráðherra Bretlands | |
Í embætti 26. júlí 1945 – 26. október 1951 | |
Þjóðhöfðingi | Georg 6. |
Forveri | Winston Churchill |
Eftirmaður | Winston Churchill |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 3. janúar 1883 Putney, Surrey, Englandi |
Látinn | 8. október 1967 (84 ára) London, Englandi |
Þjóðerni | Breskur |
Stjórnmálaflokkur | Verkamannaflokkurinn |
Maki | Violet Millar (g. 1922; d. 1964) |
Börn | 4 |
Háskóli | University-háskóli, Oxford |
Clement Richard Attlee (3. janúar 1883 – 8. október 1967) var breskur stjórnmálamaður sem gegndi embætti forsætisráðherra Bretlands á árunum 1945 til 1951 og formaður Verkamannaflokksins frá 1935 til 1955. Árið 1942 gerðist Attlee fyrsti aðstoðarforsætisráðherra Bretlands í stríðsstjórnarsamstarfi Verkamannaflokksins við Íhaldsflokk Winston Churchill. Samstarfið entist til stríðsloka árið 1945, en í þingkosningunum það ár vann Verkamannaflokkurinn óvæntan stórsigur og fékk í fyrsta sinn að stofna eigin meirihlutastjórn. Stjórninni tókst að framkvæma ýmsar umbótatillögur sem áttu að hjálpa Bretlandi á eftirstríðsárunum. Á þessum tíma var 12% fylgisaukning Verkamannaflokksins í aðdraganda kosninganna fordæmalaus og er enn sú mesta sem nokkur flokkur hefur náð fyrir kosningar í Bretlandi. Attlee var endurkjörinn árið 1950 með mjög naumum þingmeirihluta en kallaði til nýrra kosninga árið eftir til þess að reyna að styrkja stöðu sína. Þar tapaði hann hins vegar naumlega fyrir Churchill og Íhaldsmönnunum þrátt fyrir að hafa fengið fleiri atkvæði. Attlee gegndi leiðtogastöðu Verkamannaflokksins lengur en nokkur annar.