Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipediu. |
Djass (enska: jazz) er tónlistarstefna sem byggist mikið á snarstefjun (spuna) og ákveðinni hrynjandi. Djassinn er upprunninn í Bandaríkjunum og á rætur að rekja til blústónlistar blökkumanna.
Djass er oft kallaður „hin klassíska tónlist Bandaríkjanna“ en djassinn er ein af elstu og dáðustu tónlistarstefnum sem komið hafa frá Norður-Ameríku. Sögu djassins má rekja aftur á fyrri hluta 20. aldarinnar í Bandaríkjunum og hefur hann verið áberandi hluti af menningu bandarískra blökkumanna í meira en 100 ár. Rætur djassins má rekja til bandarísku borganna New Orleans, New York og Chicago og lifir þessi tónlistarlega hefð góðu lífi í þessum borgum enn þann dag í dag.[1]
Það sem einkennir djasstónlistina er sterkur hrynjandi, dapurlegir tónar, einleikskaflar og melódíur sem eru leiknar af fingrum fram. Í gegnum sögu djassins hafa þessi einkenni verið sterkustu áhrifavaldarnir í að skapa þessa frumlegu tónlistarstefnu. Djassinn bar einnig með sér ýmsar nýjungar í tónlistarheiminn og má þar til dæmis nefna að djasstónlistarmenn kynntu trommusettið til sögunnar.[2]
Þau hljóðfæri sem mest eru notuð í djassi eru saxófónn, klarinett, flauta, trompet, píanó, gítar, banjó, túba, bassi, söngur, trommusett og básúna.
Djass þróaðist út frá blöndu af blús, ragtime-tónlist, tónlist lúðrasveita, ýmissi evrópskri tónlist, spirituals og einnig óhefbundinni danstónlist sem mátti heyra á götum Storyville-rauðljósahverfisins í New Orleans í lok 19. aldarinnar. Þar má meðal annars nefna að King Oliver, kornettleikari sem Louis Armstrong leit gríðarlega mikið upp til, var mikið með tónleika á þessum tímum.[3]
Fyrsta tónlistarstefnan sem kalla má djass þróaðist í New Orleans. Þar varð til sérstakur stíll sem síðar var kallaður Dixieland. Tónlistina sömdu margir litlir hópar hljóðfæraleikara sem spunnu tónana hver fyrir sig og tvinnuðu svo saman í eina heild sem náði að halda jafnvægi í tónlistarlegu flæði. Margir þessara tónlistarmanna kunnu ekki að lesa nótur en spunnu tónlistina af mikilli tilfinningu í samfloti við aðra meðlimi hljómsveitarinnar.[4]