Lýðveldið Finnland | |
Suomen tasavalta (finnska) Republiken Finland (sænska) | |
![]() |
![]() |
Fáni | Skjaldarmerki |
Þjóðsöngur: Maamme/Vårt land | |
![]() | |
Höfuðborg | Helsinki |
Opinbert tungumál | finnska, sænska |
Stjórnarfar | Lýðveldi
|
Forseti | Alexander Stubb |
Forsætisráðherra | Petteri Orpo |
Sjálfstæði | frá Rússlandi |
• Yfirlýst | 6. desember 1917 |
• Viðurkennt | 3. janúar 1918 |
Evrópusambandsaðild | 1. janúar 1995 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
65. sæti 338.455 km² 9,71 |
Mannfjöldi • Samtals (2020) • Þéttleiki byggðar |
116. sæti 5.536.146 16/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2020 |
• Samtals | 257 millj. dala (60. sæti) |
• Á mann | 49.334 dalir (19. sæti) |
VÞL (2019) | ![]() |
Gjaldmiðill | evra € |
Tímabelti | UTC+2 (+3 á sumrin) |
Ekið er | hægra megin |
Þjóðarlén | .fi |
Landsnúmer | +358 |
Finnland (finnska Suomi; sænska: Finland), formlegt heiti Lýðveldið Finnland (finnska: Suomen tasavalta; sænska: Republiken Finland) er eitt Norðurlandanna í Norður-Evrópu. Landið liggur að tveimur flóum úr Eystrasalti: Helsingjabotni í vestri og Kirjálabotni í suðri, gegnt Eistlandi. Það á landamæri að Svíþjóð í vestri, Noregi í norðri og Rússlandi í austri. Álandseyjar í Eystrasaltinu eru undir finnskri stjórn, en njóta víðtækrar sjálfstjórnar. Finnland er tæplega 340 þúsund ferkílómetrar og þar búa 5,6 milljónir. Helsinki er bæði höfuðborg og stærsta borg landsins. Aðrar stórar borgir eru Espoo, Tampere, Vantaa, Turku og Oulu. Espoo og Vantaa ásamt Helsinki mynda höfuðborgarsvæðið og Tampere myndar annað stórt þéttbýli. Langflestir íbúar eru Finnar að uppruna. Landið hefur tvö opinber tungumál: finnsku og sænsku, en 5,2% íbúa eiga sænsku að móðurmáli.[1] Í suðurhluta landsins er meginlandsloftslag ríkjandi, en kaldtemprað loftslag í norðurhlutanum. Stór hluti landsins er í barrskógabeltinu og þakinn skógi. Finnland er stundum nefnt „þúsund vatna landið“, en þar eru yfir 180 þúsund skráð stöðuvötn.[2][3]
Elstu ummerki um mannabyggð í Finnlandi eru frá lokum síðustu ísaldar, um 9000 árum f.o.t.[4] Frá steinöld má greina nokkur ólík menningarsamfélög eftir gerð leirkerja. Bronsöld og járnöld einkenndust af auknum samskiptum við önnur samfélög í Skandinavíu og við Eystrasalt.[5] Seint á 13. öld varð Finnland hluti af Svíaveldi, í kjölfar norrænu krossferðanna. Eftir finnska stríðið 1809 lagði Rússaveldi landið undir sig og stofnaði þar Stórhertogadæmið Finnland. Á þeim tíma blómstraði myndlist og hugmyndir um sjálfstætt Finnland komust á kreik. Árið 1906 varð Finnland fyrsta landið sem innleiddi almennan kosningarétt og veitti öllum fullorðnum einstaklingum rétt til að bjóða sig fram.[6] Eftir rússnesku byltinguna 1917 lýsti Finnland yfir sjálfstæði, en árið eftir braust finnska borgarastyrjöldin út. Í síðari heimsstyrjöld réðust Sovétríkin inn í Finnland í vetrarstríðinu og framhaldsstríðinu. Seinna börðust Finnar gegn Þriðja ríki Hitlers í Lapplandsstríðinu. Í þessum átökum missti Finnland stór landsvæði, en hélt sjálfstæði sínu. Eftir styrjöldina og í kalda stríðinu hélt Finnland lengi fast við hlutleysisstefnu. Landið iðnvæddist hratt eftir stríð og byggði upp norrænt velferðarsamfélag.
Finnland gekk í Evrópusambandið árið 1995 og er eina Norðurlandaþjóðin sem hefur tekið upp evruna sem gjaldmiðil. Árið 2023 gekk Finnland af hlutleysisstefnu sinni og gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu. Finnland á aðild að Sameinuðu þjóðunum, Norðurlandaráði, Schengen-samningnum, Evrópuráðinu, Alþjóðaviðskiptastofnuninni og Efnahags- og framfarastofnuninni. Finnland situr hátt á listum yfir lönd eftir menntun, samkeppnishæfni, frelsi, lífsgæðum og þróun.[7][8][9][10]