Fiskar eru hryggdýr sem dvelja í vatni og anda með tálknum. Flestir fiskar eru með kalt blóð en sumar tegundir háffiska og túnfiska eru með heitt blóð. Af fiskum finnast yfir 29 þúsund tegundir, svo þeir eru fjölbreyttasti hópur hryggdýra. Algengt er að skipta fiskum í vankjálka (Agnatha, til dæmis steinsugur), brjóskfiska (Chondrichthyes - háffiskar og skötur) og beinfiska (Osteichthyes). Flokkunarfræðilega eru helstu hópar fiska af samhliða þróunarlínum og innbyrðis tengsl milli tegunda eru mjög umdeild.
Fiskar eru af öllum stærðum, allt frá 16 metra löngum hvalháfum að Schindleria brevipinguis sem er aðeins um 8 mm. Ýmsar óskyldar tegundir vatnadýra bera fisksheiti, svo sem smokkfiskur, en þær eru ekki raunverulegir fiskar. Önnur vatnadýr, eins og hvalir, líkjast fiskum en eru í raun spendýr.
Þótt flestir fiskar lifi aðeins í vatni og séu með kalt blóð þá eru undantekningar frá báðum þessara einkenna. Fiskar úr nokkrum ólíkum hópum hafa þróað með sér hæfileika til að lifa á landi um lengri tíma. Sumir þessara láðs- og lagarfiska, eins og eðjustökkullinn, geta lifað og farið um á landi í nokkra daga í senn. Auk þess geta sumar tegundir fiska haldið háum líkamshita að vissu marki. Innvermnir beinfiskar eru allir í undirættbálkinum Scombroidei sem inniheldur meðal annars geirnef og túnfisk og eina tegund af „frumstæðum“ makríl (Gasterochisma melampus). Allir háfiskar af hámeraætt geta haldið jöfnum hita og vísbendingar eru um að þessi hæfileiki sé til staðar í ættinni Alopiidae (skottháfum). Varmajöfnunin er mismikil eftir tegundum, allt frá geirnefnum sem heldur aðeins hita á augum og heila, að túnfiskum og hámerum sem halda jöfnum hita yfir 20 °C fyrir ofan umhverfishita vatnsins. Þótt innverming íþyngi efnaskiptunum er talið að hún feli í sér vissa kosti eins og meiri samdráttarkraft vöðva, örari vinnslu í taugakerfinu og hraðari meltingu.
Fiskar eru mikilvæg fæða manna á mörgum menningarsvæðum og fiskveiðar eru stundaðar alls staðar þar sem fiska er að finna. Í fiskeldi eru fiskar ræktaðir til manneldis. Vatnadýr eins og skeldýr eru kölluð skelfiskur í tengslum við matargerð. Fiskar eru líka veiddir og ræktaðir til skemmtunar og hafðir til skrauts í garðtjörnum og fiskabúrum.
Sú vísindagrein sem rannsakar fiska sérstaklega heitir fiskifræði en fiskar eru viðfangsefni ýmissa annarra fræðigreina eins og sjávarlíffræði, vistfræði og lífeðlisfræði.