Haf

Brim

Haf eða sjór er samfelld vatnslausn, sem þekur um 71% af yfirborði jarðar. Selta sjávar er um 3,5%, mestmegnis vegna salts (natríumklóríðs). Talið er að allt líf hafi hafist í vatni en sumar lífverur byrjuðu síðar að færa sig upp á yfirborðið og af þeim er talið að líf á yfirborðinu sé komið. Sjór er samt ennþá heimkynni allflestra lífvera á jörðinni en þar má t.d. finna spendýr svo sem hvali og seli og aragrúa fiska og margt fleira. Um 60-70% súrefnis verður til fyrir tilstilli ljóstillífunar í plöntusvifi og þara sem finna má í hafinu.

Sjórinn hagar sér að mörgu leyti eins og andrúmsloft jarðar, hreyfingar og breytingar í loftslagi og höfum eru afar tengd. Vindar valda hreyfingu á hafinu og í þeim myndast hafstraumar. Öldurnar sem myndast vegna þessara hreyfinga spila stóran þátt í mótun jarðar, þ.e. þegar öldur brotna á ströndum brjóta þær niður berg o.s.frv. Veðurbreytingar eru meiri og ofsafengnari yfir hafi en á landi þar sem hitabreytingar eru örari. Annað afl sem hefur mikil áhrif á höfin er aðdráttarafl tungls og sólar, en áhrif þess veldur svokölluðum sjávarföllum.

Sjónum er venjulega skipt í fimm úthöf, þ.e. Atlantshaf, Kyrrahaf, Indlandshaf, Norður-Íshaf og Suður-Íshaf en þau skiptast síðan í minni flóa og höf. Þar sem höfin mæta eyjaklösum og meginlöndum verða til jaðarhöf og innhöf. Minni hlutar hafs þar sem það mætir landi eru kallaðir sjór, sund, vík, vogur, flói og fjörður. Manngerðir skipaskurðir, eins og Súesskurðurinn og Panamaskurðurinn, eru gerðir til að tengja saman hafsvæði. Dauðahaf og Kaspíahaf eru dæmi um meiriháttar stöðuvötn, sem kallast höf, þó þau séu það í raun ekki.

Ísland liggur á mörkum þriggja hafa: Grænlandshafs, Íslandshafs og Noregshafs.


From Wikipedia, the free encyclopedia · View on Wikipedia

Developed by Nelliwinne