Hnefatafl eða hneftafl er borðspil sem spilað var á söguöld. Spilið líkist skák og er herkænskuleikur þar sem ráðist er á konung. Spilareglur voru mismunandi. Leikborð í hnefatafli eru misstór og geta verið frá 7x7 reitir og upp í 19x19 reiti. Markmiðið er alltaf að kóngurinn á að reyna að komast út í horn með hjálp hinna hvítu liðsmanna sinna og svartir eiga að reyna að umkringja kónginn.
Hnefatafl er spilað á reitaborði og það eru tvær andstæðar herfylkingar og hefur önnur helmingi fleiri leikmenn en hinn. Sú fylking sem færri leikmenn hefur er hins vegar með kónginn. Markmið kóngsfylkingar er að láta kónginn sleppa. Í sumum útgáfum er hann kominn í skjól ef hann nær til einhvers reits sem er í útjaðri en í öðrum útgáfum þá er hann fyrst kominn í skjól þegar hann nær í hornreiti. Kóngurinn er alltaf staddur í miðju leikborðsins þegar leikurinn hefst. Mismunandi reglur er hvaða reitir spilaborðs eru skilgreindir kóngsreitir og hvort óvinir konungs mega lenda á þeim reitum.
Leikborði var skipt var í ferhyrnda reiti og leikmenn voru kringlóttar plötur úr gleri eða steini og nefndust þær töflur eða taflir. Þær voru ljósar og dökkar. Með töflunum var kóngur sem kallaður var hnefi. Tengingskast réði hvernig leika skyldi og nefndist teningurinn húnn.
Afbrigði af tafli sem skylt er hnefatafli var spilað í Lapplandi í Norður-Svíþjóð. Grasafræðingurinn Linné lýsir því í frásögn af ferðum sínum um Lappland árið 1732. Það heitir tablut. Tablut er leikið á borði með 81 reit eða 9 reitir á hvern kant. Með öðru liðinu er kóngur og hann stendur á miðjureit og honum fylgja 8 Svíar sem standa á skyggðu reitunum kringum hann. Í hinu liðinu eru 16 Rússar sem deilt er á fjóra staði. Allir mennirnir hafa sama gang sem er eins og hrókur í skák. Sá sem hefur kónginn reynir að koma honum út á jaðar spilaborðsins. Maður er drepinn þannig ef tveir menn andstæðings fara á næstu reiti beggja vegna við hann og er sá drepni þá tekinn af spilaborðinu.