Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipediu. Aðalvandamál þessarar greinar: Þarf að uppfæra |
iPad er spjaldtölva frá bandaríska tölvuframleiðandanum Apple. Tækið er meðal annars notað til að skoða stafrænar bækur (frá iBookstore), myndir og myndbönd, hlusta á tónlist, vafra um á Internetinu og spila tölvuleiki. Stærð og þyngd tækisins er mitt á milli snjallsíma og fartölvu. Stýrikerfi iPad, iOS, er sama stýrikerfið og það sem iPod touch og iPhone nota. Hægt er að nota forrit skrifuð fyrir iPhone á iPad. Án breytinga getur iPad aðeins notað forrit frá App Store, hugbúnaðarveitu Apple. Forritið iWork fæst fyrir iPad, en fylgir ekki með henni.
Eins og iPod Touch og iPhone er iPad með fjölsnertiskjá, ólíkt eldri spjaldtölvum sem þá höfðu þekkst. Þeim var stýrt með stílum og flestar voru með áföstu lyklaborði. Eina lyklaborðið á iPad er á snertiskjá og birtist aðeins þegar það er notað. iPad styður Wi-Fi-samband til að tengjast Internetinu en sumar útgáfur geta notað SIM-kort til að tengjast farsímaneti. Hægt er að sækja gögn eins og tónlist og kvikmyndir fyrir iPad með efnisveitunni iTunes úr tölvu í gegnum USB-kapal. iPad er með örgjörva sem þróaður hefur verið og framleiddur af Apple, Apple A4.
Apple kynnti fyrstu iPad-tölvurnar í janúar 2010. Yfir 3 milljón tæki seldust fyrstu 80 dagana.[1] Árið 2010 seldust 14,8 milljónir iPad-tölva í heiminum,[2][3][4] sem var um 75% af öllum spjaldtölvum sem seldar voru það ár.[5] Eftir að iPad 2 var kynnt í mars 2011 seldust yfir 15 milljón eintök.[6] Búist var við að markaðshlutdeild iPad á spjaldtölvumarkaðinum í Bandaríkjunum yrði um 83% árið 2011.[7]