Joe Biden | |
---|---|
Forseti Bandaríkjanna | |
Núverandi | |
Tók við embætti 20. janúar 2021 | |
Varaforseti | Kamala Harris |
Forveri | Donald Trump |
Eftirmaður | Donald Trump |
Varaforseti Bandaríkjanna | |
Í embætti 20. janúar 2009 – 20. janúar 2017 | |
Forseti | Barack Obama |
Forveri | Dick Cheney |
Eftirmaður | Mike Pence |
Öldungadeildarþingmaður fyrir Delaware | |
Í embætti 3. janúar 1973 – 15. janúar 2009 | |
Forveri | J. Caleb Boggs |
Eftirmaður | Ted Kaufman |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 20. nóvember 1942 Scranton, Pennsylvaníu, Bandaríkjunum |
Stjórnmálaflokkur | Demókrataflokkurinn |
Maki | Neilia Hunter (g. 1966; d. 1972) Jill Biden (g. 1977) |
Trúarbrögð | Kaþólskur |
Börn | 4 |
Bústaður | Hvíta húsið, Washington, D.C. |
Háskóli | Háskólinn í Delaware Syracuse-háskóli |
Starf | Stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Joseph Robinette Biden Jr. (fæddur 20. nóvember 1942) er bandarískur stjórnmálamaður úr Demókrataflokknum og núverandi forseti Bandaríkjanna frá 2021. Biden var áður varaforseti Bandaríkjanna frá 2009 til 2017 í forsetatíð Baracks Obama og sat á öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir heimafylki sitt, Delaware, frá 1973 til 2009.[1] Biden tók við embætti Bandaríkjaforseta þann 20. janúar 2021 eftir að hafa unnið forsetakosningarnar 2020 og er því 46. forseti Bandaríkjanna.
Biden hafði áður sóst eftir tilnefningu Demókrataflokksins sem forsetaframbjóðandi í forsetakosningunum árið 1988 og forsetakosningunum árið 2008 en hætti við bæði framboðin eftir slakt gengi. Þann 23. ágúst 2008 tilkynnti Barack Obama að Biden yrði varaforsetaefni sitt í forsetakosningunum. Obama og Biden unnu kosningarnar og náðu endurkjöri í kosningunum 2012.
Biden tilkynnti þann 25. apríl 2019 að hann hygðist gefa kost á sér í þriðja sinn í forsetakosningunum 2020 á móti Donald Trump, sitjandi forseta úr Repúblikanaflokknum.[2] Biden var formlega tilnefndur frambjóðandi Demókrataflokksins á flokksþingi Demókrata þann 18. ágúst.[3] Þann 7. nóvember, fjórum dögum eftir að kosningarnar fóru fram, hafði Biden tryggt sér meirihluta í kjörmannaráðinu sem velur forsetann samkvæmt talningum, og var hann því lýstur sigurvegari af flestum bandarískum fréttastofum og eftirlitsstofnunum.[4] Kjörmannaráðið staðfesti kjör hans þann 14. desember[5] og Biden tók því við sem 46. forseti Bandaríkjanna þann 20. janúar 2021.[6]
Þann 25. apríl 2023 tilkynnti Biden að hann hygðist bjóða sig fram til endurkjörs í forsetakosningununum 2024. Hann tryggði sér útnefningu Demókrata þann 12. mars 2024 og hlaut 87,1% atkvæða í forvali flokksins. Hann dró síðan framboð sitt til endurkjörs til baka þann 21. júlí 2024 eftir fjölda áskorana vegna áhyggja af aldri hans eftir slæma útkomu í kappræðum á móti Trump í júní 2024. Biden er fyrsti forsetinn sem býður sig ekki fram til endurkjörs frá Lyndon B. Johnson árið 1968. Hann mun því láta af embætti forseta Bandaríkjanna þann 20. janúar 2025. Donald Trump var kjörinn eftirmaður hans í forsetakosningunum sem fóru fram í nóvember 2024 þar sem kosið var á milli Trump og Kamölu Harris varaforseta Bandaríkjanna.
Biden er elsti maður sem hefur náð kjöri til forseta Bandaríkjanna, en hann var 79 ára þegar að hann náði kjöri. Hann er jafnframt annar kaþólski forseti landsins, á eftir John F. Kennedy, og fyrsti Bandaríkjaforsetinn frá Delaware.
<ref>
tag; tilgreindu texta fyrir tilvísun með nafnið kjörmannaráð