John J. Pershing

John Joseph Pershing
Fæddur13. september 1860
Dáinn15. júlí 1948 (87 ára)
Washington, D.C., Bandaríkjunum
StörfHermaður
MakiHelen Frances Warren (g. 1905, d. 1915)
BörnMary (d. 1915), Anne (d. 1915), Helen (d. 1915), Francis Warren
ForeldrarJohn Fletcher Pershing & Ann Elizabeth Thompson
Undirskrift

John Joseph „Black Jack“ Pershing (13. september 1860 – 15. júlí 1948) var bandarískur herforingi sem stýrði bandaríska hernum á vesturvígstöðvunum í fyrri heimsstyrjöldinni frá 1917 til 1918.

Pershing hafnaði kröfum Breta og Frakka um að bandarískir hermenn yrðu settir undir þeirra stjórn og krafðist þess að bandaríski heraflinn berðist sem ein samstæð heild undir hans forystu. Sumar bandarískar herdeildir voru þó settar undir stjórn Breta og Pershing leyfði einnig nokkrum herdeildum blökkumanna að berjast með franska hernum.

Bandarískir hermenn tóku fyrst þátt í stórátökum fyrri heimsstyrjaldarinnar í orrustunum við Cantigny, Chateu-Thierry, Belleau-skóg og Soissons árið 1918. Nýliðum hersins var flýtt til Frakklands án mikils herbúnaðar til að komast sem fyrst á vígvöllinn og Bandaríkjamenn nýttust því í fyrstu við breska og franska skriðdreka, stórskotabyssur og flugvélar. Pershing fór sjálfur fyrir fyrstu herdeild Bandaríkjahersins í september árið 1918 í orrustu við Saint-Mihiel og rak þar Þjóðverja af frönsku landsvæði sem þeir höfðu hernumið í þrjú ár. Í Meuse-Argonne-sókninni flutti Pershing um 600.000 bandaríska hermenn til Argonne-skógar og barðist þar í 47 daga ásamt Frökkum. Meuse-Argonne-sókin var hluti af hundraðdagaáhlaupinu sem leiddi til þess að Þjóðverjar neyddust til að semja um vopnahlé í nóvember árið 1918. Pershing var þeirrar skoðunar að réttast væri að halda stríðinu áfram þar til allt Þýskaland væri hertekið svo hægt yrði að gera út af við stríðsvilja Þjóðverja til frambúðar.

Pershing er eini Bandaríkjamaðurinn sem hefur hlotið tignina hershöfðingi herjanna (General of the Armies) á ævi sinni. Þetta er hæsta tign sem hægt er að bera í Bandaríkjahernum. Pershing var leyft að velja sín eigin tignarmerki og valdi að bera fjórar gullstjörnur til að skera sig frá venjulegum hershöfðingjum, sem báru fjórar silfurstjörnur.[1] Eftir að embætti fimmstjörnuhershöfðingja varð til í seinni heimsstyrjöldinni má líta svo á að hertign Pershing samsvari hertign sexstjörnuhershöfðingja. Pershing lést áður en greitt var úr því hvar hertign hans stæði í nýju tignarröðinni.

Pershing hefur sætt gagnrýni fyrir hertækni sína bæði af hálfu samtímamanna og sagnfræðinga síðari tíma. Hann reiddi sig mjög á bein áhlaup löngu eftir að aðrir herforingjar bandamanna höfðu hætt slíkum aðferðum og hefur Pershing því verið kennt um að gera dauðsfall Bandaríkjamanna meira en það hefði þurft að vera.[2] Auk þess að leiða Bandaríkjamenn til sigurs í fyrri heimsstyrjöldinni var Pershing kennari margra bandarískra herforingja sem áttu eftir að leiða Bandaríkjaher í seinni heimsstyrjöldinni, þar á meðal George Marshall, Dwight D. Eisenhower, Omar Bradley, Lesley J. McNair, George S. Patton og Douglas MacArthur.[3][4]

  1. „Lest We Forget: Over There; The Reduction of the Marne Salient“. The Evening Star. Franklin, IN. 18. apríl 1925. bls. 7. Afrit af uppruna á 16. janúar 2017. „...and the boys stood in formation from noon till evening before the arrival of the automobile bearing the impressive insignia of four gold stars.“
  2. Sheffield, G. (2001). Forgotten Victory: The First World War: Myths and Realities (2002 ed.). London: Headline Book Publishing.
  3. Tucker, Spencer C. (2014). World War I: The Definitive Encyclopedia and Document Collection. 1. bindi. Santa Barbara, CA: ABC-CLIO. bls. 1238. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. apríl 2016.
  4. Keane, Michael (2012). George S. Patton: Blood, Guts, and Prayer. Washington, DC: Regnery History. bls. 73. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. apríl 2016.

From Wikipedia, the free encyclopedia · View on Wikipedia

Developed by Nelliwinne