Krabbamein eru sjúkdómsgerðir sem einkennast af stjórnlausri frumuskiptingu og þeim eiginleika frumnanna að geta flust yfir í aðra líkamsvefi, annaðhvort með því að vaxa yfir í aðlægan vef (innrás) eða flutningi frumna í fjarlægan vef (meinvarp) til dæmis um blóðrás. Þessi óvenjulega hegðun frumna orsakast af gölluðu DNA, sem veldur stökkbreytingu mikilvægra gena sem stjórna frumuskiptingu og annarri starfsemi. Ein eða fleiri slík stökkbreyting, sem getur verið meðfædd eða áunnin, getur leitt til stjórnlausrar frumuskiptingar og myndunar æxlis. Æxli er hvers kyns óeðlileg vefjanýmyndun, en getur verið annaðhvort illkynja eða góðkynja. Aðeins illkynja æxli gera innrás í nýjan vef eða valda meinvarpi.
Krabbamein getur valdið ýmsum sjúkdómum, en það veltur á staðsetningu, gerð meinsins og hvort meinvarp á sér stað. Til að fá úr því skorið þarf venjulega að gera ítarlega rannsókn á vefjasýni sem fæst með vefjasýnistöku. Eftir greiningu er venjulega brugðist við með skurðaðgerð, efnameðferð og eða geislameðferð.
Ef ekkert er að gert dregur krabbameinið oftast til dauða, krabbamein er ein helsta dánarorsök í hinum vestræna heimi. Hægt er að bregðast við flestum krabbameinsgerðum og hægt er að lækna marga, sérstaklega ef meðferðin hefst snemma. Margar gerðir krabbameins eru tengdar umhverfisáhrifum sem má forðast. Tóbaksreykingar eru sá umhverfisþáttur sem leiðir hvað oftast til krabbameins.