Leiklist er sú listgrein sem felur í sér að „leika sögur“ eða merkingarleysur, herma eftir látbragði annarra persóna (hluta eða dýra) fyrir framan áhorfendur. Oftast er sagan merkingarbær og skrifuð fyrirfram. Handrit að slíkum gangi verks - með sviðslýsingum, texta persóna o.s.frv. - nefnist leikrit. Yfirleitt fer leiksýning fram í leikhúsi, og er oftast notast við ýmsar samsetningar tals, látbragðs, svipbrigða, tónlistar, dans og annarra hluta til að gera söguna ljóslifandi fyrir augum áhorfenda.
Til viðbótar við hefðbundna leiklist, þar sem sagan er sögð í óbundnu máli og reynt er eftir fremsta megni að líkja eftir raunveruleika sögunnar, eru til ýmis stílfærð afbrigði leiklistar, svo sem ópera, ballett, og fleiri sýningarform.