Leipzig er stærsta borgin í þýska sambandslandinu Saxlandi með um 600 þúsund íbúa (2019). Borgin reis sem miðstöð verslunar þar sem árnar Pleiße, Weiße Elster og Parthe mætast. Háskólinn í Leipzig var stofnaður árið 1409 og fyrsta langlínujárnbrautin í Þýskalandi var lögð milli Leipzig og Dresden árið 1839. Leipzig var á árum áður höfuðborg prentlistarinnar. Í borginni bjó og starfaði tónskáldið Johann Sebastian Bach mestan hluta ævi sinnar.