56°57′00″N 24°06′00″A / 56.95000°N 24.10000°A
Lýðveldið Lettland | |
Latvijas Republika | |
![]() |
![]() |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: Föðurland og frelsi | |
Þjóðsöngur: Dievs, svētī Latviju! (Guð blessi Lettland) | |
![]() | |
Höfuðborg | Ríga |
Opinbert tungumál | lettneska |
Stjórnarfar | Þingræði
|
Forseti Forsætisráðherra |
Edgars Rinkēvičs Evika Siliņa |
Sjálfstæði | |
• frá Rússlandi | 6. september 1991 |
Evrópusambandsaðild | 1. maí 2004 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
122. sæti 64.589 km² 2,09 |
Mannfjöldi • Samtals (2020) • Þéttleiki byggðar |
147. sæti 1.907.675 29,6/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2021 |
• Samtals | 63,539 millj. dala (106. sæti) |
• Á mann | 33.393 dalir (43. sæti) |
VÞL (2019) | ![]() |
Gjaldmiðill | evra (EUR) |
Tímabelti | UTC+2 |
Þjóðarlén | .lv |
Landsnúmer | +371 |
Lettland (lettneska: Latvija) er eitt af Eystrasaltsríkjunum ásamt Litáen og Eistlandi. Næstu nágrannar Lettlands eru Eistland í norðri, Litáen í suðri og Rússland og Hvíta-Rússland í austri. Í vestri liggur landið að Eystrasalti og þar mætast landhelgi þess og Svíþjóðar. Íbúar Lettlands eru tæplega 2 milljónir og landið er 64.589 km² að stærð. Þar er temprað loftslag ríkjandi.
Lettland hefur í gegnum aldirnar verið hluti af Svíaveldi, Póllandi og Rússneska keisaradæminu, en þýskumælandi aðall ríkti yfir íbúunum. Lýðveldið Lettland var stofnað eftir Fyrri heimsstyrjöld þann 18. nóvember 1918 en það breyttist í einræði eftir valdarán Kārlis Ulmanis 1934. Við upphaf Síðari heimsstyrjaldar var landið hernumið af Sovétmönnum. Þjóðverjar gerðu innrás í landið 1941 en Sovétmenn náðu því aftur 1944. Næstu hálfa öld var Lettland sovétlýðveldi.
Árið 1987 hófst Söngvabyltingin með kröfu um sjálfstæði frá Sovétríkjunum. Lettlandi lýsti yfir sjálfstæði 4. maí 1990 sem var viðurkennt í kjölfar upplausnar Sovétríkjanna 1991. Lettland er einstýrt þingræðisríki með 110 sveitarstjórnir og 9 borgarstjórnir. Landið situr hátt á lista yfir lönd eftir þróun lífsgæða. Ríga var menningarhöfuðborg Evrópu árið 2014.
Frumbyggjar Lettlands eru Lettar og Líflendingar. Lettneska er annað tveggja núlifandi baltneskra tungumála ásamt litáísku. Þótt landið hafi verið undir erlendri stjórn frá 13. öld til 20. aldar hafa tungumál landsins og menning haldið sérstöðu sinni. Fram að Síðari heimsstyrjöld bjuggu þar stórir hópar Eystrasaltsþjóðverja og gyðinga. Um fjórðungur íbúa Lettlands er af rússneskum uppruna. Rúmur helmingur þeirra hefur ekki borgararéttindi vegna þeirra ströngu skilyrða sem sett voru fyrir borgararétti í Lettlandi eftir sjálfstæðið frá Sovétríkjunum. Rúmur þriðjungur íbúa eru lútherstrúar en um fjórðungur rómversk-kaþólskir, aðallega í héraðinu Latgale í suðausturhluta landsins. Tæp 20% íbúa eru í rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni.
Þann 20. september 2003 kusu Lettar um inngöngu í Evrópusambandið og samþykktu það. Innganga í sambandið varð að veruleika þann 1. maí 2004. Þann 29. mars 2004 gerðist Lettland aðili að NATO. Auk þess er Lettland aðili að Evrópuráðinu, Eystrasaltsráðinu, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, NB8, Norræna fjárfestingarbankanum, Efnahags- og framfarastofnuninni, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Lettland tók upp evru sem gjaldmiðil 1. janúar 2014 í stað lettneska latsins.