Loftslagsbreytingar eða hnattræn hlýnun eru mæld og áætluð aukning á meðalhita yfirborðs lands og sjávar frá iðnbyltingunni, og áhrif þess á loftslagskerfi jarðar. Yfirstandandi hækkun hita á heimsvísu er hraðari en fyrri breytingar og stafar aðallega af brennslu manna á jarðefnaeldsneyti.[1][2] Notkun jarðefnaeldsneytis, skógeyðing og ýmsar aðrar athafnir í landbúnaði og iðnaði, auka magn gróðurhúsalofttegunda, eins og koltvísýrings og metans. Þessi efni valda gróðurhúsaáhrifum með því að halda eftir hita sem jörðin geislar út frá sér eftir að sólin hefur hitað hana. Þetta veldur orkuójafnvægi í neðri lofthjúp jarðar sem leiðir til þess að hitastig hækkar.
Loftslagsbreytingar af völdum hnattrænnar hlýnunar lýsa sér í því að eyðimerkurmyndun eykst, og hitabylgjur og skógareldar verða algengari.[3] Hlýnun pólsvæða leiðir til þess að heimskautaís og hafís hopar, og sífreri bráðnar. Hærra hitastig veldur líka öflugri stormum, þurrkum og öfgaveðri. Búsvæðabreytingar af völdum loftslagsbreytinga, eins og bleiking kóralrifja og hop heimskautaíssins, hafa leitt til þess að margar tegundir lífvera flytja sig um set eða eiga á hættu að deyja út.[4] Loftslagsbreytingar skapa líka hættu fyrir fólk, með því að valda skorti á matvælum og vatni, auknum flóðum, meiri hitabylgjum og sjúkdómum, sem allt hefur víðtæk efnahagsleg áhrif. Átök og fólksflutningar geta verið afleiðing þessara breytinga.[5] Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur kallað loftslagsbreytingar mestu ógn sem steðjar að heilsu fólks á 21. öld.[6]