Loftsteinn er lítið himinfyrirbæri, sem aðdráttarafl jarðar dregur með miklum hraða um lofthjúpinn. Við ferð sína hitnar loftsteinninn mikið vegna núnings við sameindir andrúmsloftsins þannig að hann verður sjálflýsandi. Sést þá ljósrák á næturhimni og nefnist stjörnuhrap. Yfirleitt brenna loftsteinar til agna í lofthjúpinum en þeir stærstu lenda á yfirborðinu og geta þá myndað gíga. Minnstu loftsteinarnir eru á stærð við sandkorn, en þeir geta verið mun stærri. Hoba-loftsteinninn er stærsti loftsteinn sem fundist hefur á jörðu.