Ludwig Josef Johann Wittgenstein | |
---|---|
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 26. apríl 1889 |
Svæði | Vestræn heimspeki |
Tímabil | Heimspeki 20. aldar |
Skóli/hefð | Rökgreiningarheimspeki |
Helstu ritverk | Rökfræðileg ritgerð um heimspeki (1921/1922), Rannsóknir í heimspeki (1953) |
Helstu kenningar | Rökfræðileg ritgerð um heimspeki (1921/1922), Rannsóknir í heimspeki (1953) |
Helstu viðfangsefni | málspeki, hugspeki, rökfræði, heimspeki stærðfræðinnar, þekkingarfræði, frumspeki |
Ludwig Josef Johann Wittgenstein (26. apríl 1889 – 29. apríl 1951) var austurrískur heimspekingur sem var brautryðjandi á ýmsum sviðum nútímaheimspeki, einkum í rökfræði, málspeki og hugspeki. Hann er af mörgum talinn einn áhrifamesti og merkasti heimspekingur 20. aldar.[1]
Enda þótt ýmsar minnisbækur, seðlar og fyrirlestrar hafi verið gefnir út að honum látnum lét Wittgenstein þó einungis gefa út eina bók eftir sig meðan hann var á lífi — Rökfræðilega ritgerð um heimspeki (Logisch-Philosophische Abhandlung eða Tractatus Logico-Philosophicus) árið 1921.
Elstu verk Wittgensteins voru undir miklum áhrifum frá Arthur Schopenhauer og hinni nýju rökfræði sem Bertrand Russell og Gottlob Frege höfðu skapað. Þegar Tractatus (eins og bókin er oftast kölluð) kom út hafði hún veruleg áhrif á heimspekinga Vínarhringsins. Wittgenstein taldi sig aftur á móti ekki tilheyra þeim skóla hugsunar og sagði að rökfræðilegu raunhyggjumennirnir hefðu misskilið Tractatus illa.
Þegar Wittgenstein hafði lokið við Tractatus taldi hann sig hafa leyst öll heimspekileg vandamál og sagði skilið við ástundun heimspekinnar. Hann fluttist til Austurríkis og gerðist barnaskólakennari, garðyrkjumaður og arkítekt en gekk í klaustur um tíma. Árið 1929 sneri hann hins vegar aftur til Cambridge. Hann hlaut doktorsgráðu fyrir Tractatus og tók við kennslustöðu í Cambridge. Hann hafnaði eða endurskoðaði mikið af eldri verkum sínum. Hann þróaði nýja aðferð við að stunda heimspeki og nýjan skilning á eðli tungumáls í seinna stórvirki sínu Rannsóknum í heimspeki (Philosophische Untersuchungen), sem kom út að honum látnum.
Bæði eldri og yngri verk hans hafa haft gríðarleg áhrif á sögu rökgreiningarheimspeki. Meðal fyrrverandi samstarfsmanna og nemenda Wittgensteins sem héldu áfram að stunda heimspeki í anda aðferðar Wittgensteins eru Gilbert Ryle, Friedrich Waismann, Norman Malcolm, G.E.M. Anscombe, Rush Rhees, Georg Henrik von Wright, og Peter Geach. Meðal heimspekinga samtímans sem eru undir miklum áhrifum frá Wittgenstein má nefna Michael Dummett, Peter Hacker, Stanley Cavell, Cora Diamond og James F. Conant.