Mengun verður þegar aðskotaefni komast út í umhverfið þar sem þau valda óstöðugleika, röskun, skaða og óþægindum í vistkerfinu. Mengun getur verið kemískt efni eða orka eins og hávaði, hiti eða ljós. Mengunarvaldar geta komið fyrir náttúrulega en þeir kallast aðskotaefni þegar þeir eru umfram náttúrulegt magn. Menguðustu borgir heims eru í Aserbaísjan, Indlandi, Kína, Perú, Rússlandi, Sambíu og Úkraínu. Borgin Linfen í Kína er talin mengaðast borg í heimi. Mengun flokkast í punktlindamengun og fjöllindamengun eftir því hvort upptök mengunarinnar má rekja til einnar eða fleiri uppspretta.
Í íslenskum lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir frá 1998 er mengun skilgreind sem „það þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta. “[1]