Panama | |
República de Panamá | |
![]() |
![]() |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: Pro Mundi Beneficio (latína) Heiminum til hagsbóta) | |
Þjóðsöngur: Himno Istmeño | |
![]() | |
Höfuðborg | Panamaborg |
Opinbert tungumál | spænska |
Stjórnarfar | Forsetalýðveldi
|
Forseti | José Raúl Mulino |
Varaforseti | |
Sjálfstæði | |
• frá Spáni | 28. nóvember 1821 |
• frá Kólumbíu | 3. nóvember 1903 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
116. sæti 75.417 km² 2,9 |
Mannfjöldi • Samtals (2022) • Þéttleiki byggðar |
127. sæti 4.337.768 56/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2021 |
• Samtals | 128,5 millj. dala (80. sæti) |
• Á mann | 29.608 dalir (57. sæti) |
VÞL (2021) | ![]() |
Gjaldmiðill | balbóa (PAB) |
Tímabelti | UTC-5 |
Þjóðarlén | .pa |
Landsnúmer | +507 |
Panama (spænska: Panamá) er syðsta landið í Mið-Ameríku. Panama er mjótt land sem tengir saman Norður-Ameríku og Suður-Ameríku. Það á landamæri að Kosta Ríka í vestri og Kólumbíu í austri, og strönd að Karíbahafi í norðri og Kyrrahafi í suðri. Höfuðborg og stærsta borg landsins er Panamaborg þar sem um helmingur íbúa býr. Skipaskurður yfir Panamaeiðið, Panamaskurðurinn, hefur verið mikill áhrifavaldur í sögu landsins.
Landið var byggt frumbyggjum áður en Spánverjar komu þangað á 16. öld. Landið klauf sig frá spænska heimsveldinu árið 1821 og varð hluti af Stór-Kólumbíu, sem var sambandsríki Nýju-Granada, Ekvador og Venesúela. Þegar Stór-Kólumbía leystist upp árið 1831 urðu Panama og Nýja-Granada lýðveldið Kólumbía. Panama klauf sig frá Kólumbíu með stuðningi Bandaríkjanna árið 1903, sem gerði Verkfræðisveit Bandaríkjahers kleift að ljúka við Panamaskurðinn milli 1904 og 1914. Torrijos-Carter-samningarnir fólu í sér að yfirráð yfir skurðinum fluttust til Panama 31. desember 1999,[1] en landinu í kringum skurðinn var skilað árið 1979.[2]
Gjöld af skurðinum eru enn mikilvæg tekjulind og stór hluti af vergri landsframleiðslu í Panama. Verslun, fjármálaþjónusta og ferðaþjónusta fara þó vaxandi. Panama er skilgreint sem hátekjuland og 2019 var það í 57. sæti vísitölu um þróun lífsgæða. Árið 2018 var Panama talið samkeppnishæfasta land Rómönsku Ameríku af World Economic Forum.[3] Frumskógur þekur um 40% af landi Panama og geymir mikla auðlegð í formi dýra- og jurtategunda sem sum finnast hvergi annars staðar á jörðinni. Panama er stofnaðili að Sameinuðu þjóðunum og öðrum alþjóðastofnunum, eins og Samtökum Ameríkuríkja, Samtökum um samruna í Rómönsku Ameríku, G77, Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og Samtökum hlutlausra ríkja.