Siglingakeppni eða kappsigling er keppni í siglingum þar sem seglbátar (kænur, kjölbátar eða seglbretti) eigast við. Siglingakeppnir greinast í strandsiglingakeppnir sem fara fram nálægt landi, oft í kringum baujur eða eyjar, og úthafssiglingakeppnir þar sem keppt er á löngum siglingaleiðum. Siglingakeppnir geta verið forgjafarkeppnir milli báta af ólíkum gerðum eða klassakeppnir milli báta af sömu tegund eða sem uppfylla sömu hönnunarviðmið. Tvíliðakeppnir eru siglingakeppnir þar sem aðeins tveir sams konar bátar keppa sín á milli, oftast nokkrar umferðir.
Formlegar siglingakeppnir eru haldnar samkvæmt Alþjóðlegu kappsiglingareglunum sem Alþjóðasiglingasambandið gefur út. Siglingakeppnir eru haldnar af siglingafélögum sem eru aðilar að siglingasambandi viðkomandi lands.