Sink (úr þýsku, zinke, „hvasst, skörðótt“) er frumefni með efnatáknið Zn og er númer 30 í lotukerfinu. Það er fyrsta frumefnið í flokki 12. Efnafræðilega svipar því til magnesíns af því að jón þess er af svipaðri stærð og eina algenga oxunartala þess er +2. Sink er 24. algengasta frumefnið í jarðskorpunni og á sér fimm stöðugar samsætur. Sink er mest unnið úr málmgrýtinu sinkblendi sem er sinksúlfíð. Stærstu námurnar eru í Ástralíu, Kanada og Bandaríkjunum. Það er unnið með fleytingu, brennslu og úrvinnslu með raflausnarmálmvinnslu.