Snorri Sturluson (1179 – 23. september 1241) var íslenskur sagnaritari, skáld og stjórnmálamaður. Hann var mikilvirkur fræðimaður og meðal annars höfundur Snorra-Eddu. Hann var einnig höfundur Heimskringlu er segir sögu norsku konunganna og hefst þar á hinni goðsagnakenndu Ynglinga sögu og rekur síðan sögu konunganna fram til samtíma síns. Einnig er talið líklegt að hann sé höfundur Egils sögu Skallagrímssonar. Snorri bjó fyrst á Borg á Mýrum en lengst af í Reykholti í Borgarfirði.