Stjarna eða sólstjarna er risastór hnöttur úr rafgasi sem verður glóandi vegna kjarnasamruna í iðrum stjörnunnar. Sólin er sú stjarna sem nálægust er jörðu. Margar aðrar stjörnur eru sýnilegar með berum augum á næturhimninum, en vegna mikillar fjarlægðar frá jörðu birtast þær sem fastir ljóspunktar. Stærstu stjörnurnar hafa verið flokkaðar saman í stjörnumerki og stjörnuþyrpingar, og menn hafa gefið björtustu stjörnunum nöfn. Stjörnufræðingar hafa gefið út stjörnuskrár þar sem þekktar stjörnur eru skráðar með stöðluðum stjörnuheitum. Í sýnilegum alheimi er talið að fjöldi stjarna sé milli 1022 og 1024. Af þessum fjölda stjarna eru aðeins um 4.000 sýnilegar með berum augum.[1] Allar sýnilegar stjörnur er að finna í stjörnuþokunni Vetrarbrautinni.
Stjörnur myndast við þyngdarhrun geimþoku úr efni sem er aðallega vetni, ásamt helíni og snefil af þyngri efnum. Talið er að alheimurinn hafi myndast við miklahvell og byrjað að þenjast út og kólna. Seinna meir hafi rykský þést vegna eigin þyngdarafls og orðið að stjörnum. Massi stjörnunnar er það sem helst ræður þróun hennar og örlögum. Stjarna skín megnið af líftíma sínum vegna kjarnasamruna vetnis í helín í kjarna hennar. Þetta ferli leysir orku sem fer í gegnum stjörnuna og geislar út í útgeim. Þegar stjarna nálgast endalokin verður kjarni hennar að stjörnuleif: hvítur dvergur, nifteindastjarna, eða, ef hún er nógu massamikil, svarthol.
Kjarnasamruninn sem verður í stjörnum eða stjörnuleifum myndar nær öll frumefni sem koma fyrir í náttúrunni og eru þyngri en litín. Stjörnur sem missa massa, eða sprengistjörnur, gefa auðgað efni út í miðgeimsefnið. Þessi frumefni mynda síðan nýjar stjörnur. Stjörnufræðingar geta reiknað út eiginleika stjarna eins og massa, aldur, efnasamsetningu, breytileika, fjarlægð og hreyfingu um geiminn; með því að skoða sýndarbirtu, litróf og breytingar á stöðu yfir tíma.
Flestar stjörnur hafa fylgihnetti, sem ganga á sporbaugum umhverfis stjörnuna og mynda sólkerfi. Til eru sólkerfi í kringum tvístirni eða fleiri stjörnur. Þar sem tvær stjörnur eru nærri hver annarri geta þær haft veruleg áhrif á þróun hverrar annarrar með þyngdarafli sínu. Stjörnur geta myndað stærri kerfi eins og stjörnuþyrpingar eða stjörnuþokur sem tengjast innbyrðis með þyngdarafli.