Tom Waits (fæddur Thomas Alan Waits 7. desember 1949 í Kaliforníu) er bandarískur tónlistarmaður og leikari. Hann er þekktur fyrir sérstæða rödd sína. Waits dregur áhrif sín úr frumdjass og hráum blús. Hann spilar aðallega á píanó en einnig gítar, banjó og ásláttarhljóðfæri.
Hann byrjaði feril sinn þegar hann var dyravörður á þjóðlagabúllu í San Diego. Tók Waits þátt í hæfileikakeppni í Los Angeles og fékk í kjölfarið útgáfusamning. Fyrsta platan, Closing Time, kom út árið 1973 [1]. Waits hefur unnið tvenn Grammy verðlaun. Var það fyrir plöturnar Bone Machine og Mule Variations. Tímaritið Rolling Stone setti hann á lista 100 bestu lagahöfunda allra tíma.
Waits býr í Sonoma-sýslu í Kaliforníu með konu sinni Kathleen Brennan sem hefur samið með honum lög. Þau eignuðust þrjú börn.