Tyrkjaveldi | |
دولت عليه عثمانیه Devlet-i ʿAlīye-i ʿOsmānīye | |
![]() |
![]() |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: دولت ابد مدت Devlet-i Ebed-müddet („Ríkið eilífa“)[1] | |
![]() | |
Höfuðborg | Söğüt[2] (u. þ. b. 1299–1331) Níkea[3] (İznik) (1331–1335) Bursa[4] (1335–1363) Adríanópólis (Edirne)[4] (1363–1453) Konstantínópel (nú Istanbúl) (1453–1922) |
Opinbert tungumál | Tyrkneska |
Stjórnarfar | Einveldi (1299–1876; 1878–1908; 1920–1922) og kalífadæmi (1517–1924[5]) Þingbundin konungsstjórn (1876–1878; 1908–1913; 1918–1920) Flokksræði (1913–1918)
|
Soldán | Ósman 1. (1299–1323/1324; fyrstur) Mehmed 6. (1918–1922; síðastur) |
Kalífi | Selím 1. (1517–1520; fyrstur) Abdúl Mejid 2. (1922–1924; síðastur) |
Nýtt ríki | |
• Stofnun | Í kringum 1299 |
• Soldánslaust tímabil | 1402–1413 |
• Stofnun heimsveldis | 1453 |
• Fyrra stjórnarskrártímabilið | 1876–1878 |
• Seinna stjórnarskrártímabilið | 1908–1920 |
• Soldánsdæmið afnumið | 1. nóvember 1922 |
• Lýðveldið Tyrkland stofnað | 29. október 1923 |
• Kalífadæmið afnumið | 3. mars 1924 |
Flatarmál • Samtals |
5.200.000[6][7] km² |
Mannfjöldi • Samtals (1912) • Þéttleiki byggðar |
24.000.000[8] Breytilegt/km² |
Gjaldmiðill | Ýmsir: Akçe, Para, Sultani, Kuruş, Líra |
Tyrkjaveldi, einnig nefnt Ottómanveldið eða Ósmanska ríkið, (ottómönsk tyrkneska: دولت عالیه عثمانیه, Devlet-i Âliye-yi Osmâniyye, tyrkneska: Osmanlı Devleti eða Osmanlı İmparatorluğu) var stórveldi við austurhluta Miðjarðarhafs sem Tyrkir stjórnuðu. Tyrkjaveldi ríkti yfir stórum hlutum Suðaustur-Evrópu, Vestur-Asíu og Norður-Afríku milli 14. og 20. aldar. Tyrkjaveldið var stofnað í norðvesturhluta Anatólíu árið 1299 í bænum Söğüt, af ættbálkahöfðingjanum Ósman (arabíska: Uthmān) sem heimsveldið var síðan kennt við.[9] Ottómanar réðust fyrst inn í Evrópu árið 1354 og hófu að leggja Balkanskaga undir sig. Þar með breyttist ósmanska soldánsdæmið í heimsveldi með lönd í tveimur heimsálfum. Soldáni Mehmed II lagði stórborgina Konstantínópel undir sig árið 1453 og batt þannig enda á Austrómverska keisaradæmið.[10]
Undir stjórn Súleimans mikla náði Tyrkjaveldi hátindi þróunar og útbreiðslu.[11] Í upphafi 17. aldar skiptist ríkið í 32 héruð auk fjölda skattlanda. Sum þeirra voru síðar innlimuð í heimsveldið, en sum héldu eftir mismikilli sjálfstjórn í gegnum aldirnar. Konstantínópel varð höfuðborg heimsveldisins sem Istanbúl og Tyrkjaveldi var í margar aldir milligönguríki í verslun milli Evrópu og Asíu.
Áður var gjarnan sagt að ríkinu hefði tekið að hnigna eftir lát Súleimans mikla, en fræðimenn eru ekki lengur almennt á þeirri skoðun.[12][13][14] Ríkið einkenndist af sterku og sveigjanlegu stjórnkerfi, efnahagskerfi og her á 17. og 18. öld.[15][16] Á löngu friðartímabili, milli 1740 til 1768, dróst Tyrkjaveldi hernaðarlega aftur úr helstu keppinautum sínum, Habsborgaraveldinu og Rússaveldi.[17] Í kjölfarið biðu Ottómanar nokkra alvarlega ósigra seint á 18. öld og 19. öld. Sjálfstæðisstríð Grikkja leiddi til sjálfstæðis Grikklands árið 1830. Þessi áföll leiddu til tilrauna til að nútímavæða ríkið með umbótum sem nefndust Tanzimat. Á 19. öld efldist ríkisvaldið því, þrátt fyrir missi landsvæða á Balkanskaga þar sem mörg ný sjálfstæð ríki urðu til á fyrrum yfirráðasvæði Tyrkjaveldis.
Með byltingu Ungtyrkja árið 1908 var stjórn ríkisins breytt í þingbundið konungsvald, en eftir slæmt gengi í Balkanstríðunum tók nefnd um einingu og framfarir yfir stjórn ríkisins með valdaráni árið 1913 og kom á flokksræði. Stjórnin gerði bandalag við Þýskaland og Tyrkjaveldi varð eitt af Miðveldunum í Fyrri heimsstyrjöld.[18] Innanlandsátök settu mark sitt á ríkið, uppreisn Araba hófst í Vestur-Asíu og stjórnin stóð að þjóðarmorðum gegn Armenum, Assýringum og Grikkjum.[19][20] Ósigurinn og hernám Bandamanna Tyrkjaveldis leiddu til skiptingar þess og yfirtöku Breta og Frakka á fyrrum yfirráðasvæðum þess í Mið-Austurlöndum. Mustafa Kemal Atatürk leiddi sjálfstæðisstríð Tyrklands gegn Bandamönnum og með stofnun lýðveldisins Tyrklands árið 1922 var Tyrkjaveldi formlega lagt niður.[21]