William Shakespeare

William Shakespeare
William Shakespeare
Hið umdeilda Chandos-málverk telja sumir vera af Shakespeare.
Fæddur: 26. apríl 1564 (skírður)
Stratford-upon-Avon, Warwickshire, Englandi
Látinn:23. apríl 1616
Stratford-upon-Avon, Warwickshire, England
Starf/staða:Leikskáld, ljóðskáld, leikari
Þjóðerni:Enskur
Bókmenntastefna:Ensk endurreisnarstefna
Þekktasta verk:Rómeó og Júlía (1597)
Hamlet (1599–1602)
Maki/ar:Anne Hathaway (g. 1582)
Börn:Susanna Hall
Hamnet Shakespeare
Judith Quiney
Undirskrift:

William Shakespeare (skírður 26. apríl 1564, d. 23. apríl 1616) var enskur leikari, leikskáld og ljóðskáld. Hann samdi um 38 leikrit, 154 sonnettur og önnur ljóð. Leikrit hans náðu töluverðum vinsældum meðan hann lifði og eftir að hann lést varð hann smám saman mikilvægari í samhengi bókmennta á ensku. Nú á dögum er ekki óalgengt að hann sé kallaður mesti rithöfundur á enskri tungu fyrr og síðar. Hann hefur verið kallaður þjóðskáld Englendinga eða „hirðskáldið“ (the bard).

Shakespeare fæddist og ólst upp í bænum Stratford-upon-Avon í Warwickshire á Englandi. Þegar hann var 18 ára gamall giftist hann Anne Hathaway og átti með henni þrjú börn: Susönnu og tvíburana Hamnet og Judith. Einhvern tíma á milli 1585 og 1592 hóf hann leikferil í London, þar sem hann fékkst við leikritun og var einn eigenda leikfélagsins Lord Chamberlain's Men (síðar King's Men). Þegar hann var 49 ára (um 1613) virðist hann hafa sest í helgan stein í Stratford þar sem hann lést þremur árum síðar. Fáar heimildir eru til um einkalíf Shakespeares sem hefur fengið fræðimenn til að velta fyrir sér hlutum eins og útliti hans, kynhneigð, trúarskoðunum og hvort verkin sem honum eru eignuð hafi hugsanlega verið skrifuð af öðrum.[1][2][3]

Shakespeare skrifaði flest þekkt leikrit sín milli 1589 og 1613.[4][5] Leikritunarferli Shakespeares er stundum skipt í þrjá meginhluta; fyrstu gamanleikina og söguleikritin (t.d. Draumur á Jónsmessunótt og Hinrik IV, 1. hluti), miðtímabilið þegar hann skrifar flesta frægu harmleikina (eins og Rómeó og Júlíu, Óþelló, Makbeð, Hamlet og Lé konung) og seinni rómönsurnar (Vetrarævintýri og Ofviðrið). Síðasta tímabilið einkenndist líka af samstarfi við aðra höfunda. Mörg af leikritum hans eru endurgerðir eldri leikrita líkt og þá tíðkaðist.

Mörg af leikritum Shakespeares komu út á prenti í misgóðum og misnákvæmum útgáfum meðan hann lifði. Árið 1623 gáfu tveir vinir Shakespeares, leikararnir John Heminges og Henry Condell, út fullbúinn texta allra leikritanna hans nema tveggja í bók sem er kölluð „Fyrsta örkin“ (First Folio).[6] Formálinn var kvæði eftir Ben Jonson þar sem Shakespeare er hylltur með þeim fleygu orðum að hann væri „ekki einnar aldar, heldur allra tíma“.[6]

  1. Shapiro 2005, bls. xvii–xviii.
  2. Schoenbaum 1991, bls. 41, 66, 397–398, 402, 409.
  3. Taylor 1990, bls. 145, 210–223, 261–265.
  4. Chambers 1930a, bls. 270–271.
  5. Taylor 1987, bls. 109–134.
  6. 6,0 6,1 Greenblatt & Abrams 2012, bls. 1168.

From Wikipedia, the free encyclopedia · View on Wikipedia

Developed by Nelliwinne