Winston Churchill

Sir Winston Churchill
Churchill árið 1941.
Forsætisráðherra Bretlands
Í embætti
10. maí 1940 – 26. júlí 1945
ÞjóðhöfðingiGeorg 6.
ForveriNeville Chamberlain
EftirmaðurClement Attlee
Í embætti
26. október 1951 – 6. apríl 1955
ÞjóðhöfðingiGeorg 6.
Elísabet 2.
ForveriClement Attlee
EftirmaðurAnthony Eden
Persónulegar upplýsingar
Fæddur30. nóvember 1874
Woodstock, Oxfordshire, Englandi, Bretlandi
Látinn24. janúar 1965 (90 ára) Kensington, London, Englandi, Bretlandi
ÞjóðerniBreskur
StjórnmálaflokkurÍhaldsflokkurinn (fyrir 1904; 1924–1964)
Frjálslyndi flokkurinn (1904–1924)
MakiClementine Hozier, síðar Churchill
BörnDiana, Randolph, Sarah, Marigold Frances, Mary
VerðlaunNóbelsverðlaunin í bókmenntum (1953)
Karlsverðlaunin (1955)

Sir Winston Leonard Spencer-Churchill (30. nóvember 187424. janúar 1965) var breskur stjórnmálamaður. Hann var forsætisráðherra Bretlands á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar frá 1940 til 1945, og aftur frá 1951-1955. Hann er þekktastur sem leiðtogi Breta í heimsstyrjöldinni, en var auk þess herskólagenginn hermaður, rithöfundur, sagnfræðingur, blaðamaður og afkastamikill listmálari. Stjórnmálaferill hans var langur og hann er einn af þekktustu stjórnmálaleiðtogum Bretlands. Hann sat á Breska þinginu frá 1900 til 1964, sem fulltrúi fimm kjördæma, og lengst af fyrir Breska íhaldsflokkinn þar sem hann var formaður frá 1940 til 1955. Hann aðhylltist bæði frjálslyndisstefnu og heimsvaldastefnu. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1953.

Hann er eini forsætisráðherra Bretlands sem fengið hefur Nóbelsverðlaunin auk þess að vera fyrstur til að vera gerður að heiðursborgara í Bandaríkjunum. Hann var af blönduðum breskum og bandarískum uppruna og fæddist inn í auðuga aðalsfjölskyldu í Oxfordskíri. Hann gekk í breska herinn og gegndi herþjónustu á Breska Indlandi, í Mahdi-stríðinu í Súdan og í síðara Búastríðinu. Hann öðlaðist frægð sem stríðsfréttaritari og fyrir bækur sem fjölluðu um herleiðangra hans. Hann var fyrst kjörinn á þing fyrir Íhaldsflokkinn 1900 en gekk í Frjálslynda flokkinn fjórum árum síðar. Í frjálslyndri ríkisstjórn H. H. Asquith var hann bæði forseti breska viðskiptaráðsins og innanríkisráðherra. Þar barðist hann fyrir velferðarumbótum. Í fyrri heimsstyrjöld var hann flotamálaráðherra og hafði umsjón með Gallipoli-herförinni, en þegar hún fór út um þúfur var hann lækkaður í tign og skipaður kanslari hertogadæmisins Lancaster. Hann sagði af sér árið 1915 og gegndi um tíma herskyldu á vesturvígstöðvunum sem yfirmaður fótgönguliðssveitar. Árið 1917 varð hann aftur ráðherra í ríkisstjórn David Lloyd George og gegndi þar embættum hergagnamálaráðherra, stríðsmálaráðherra, flugmálaráðherra og nýlendumálaráðherra. Sem slíkur hafði hann umsjón með samningi Bretlands og Írlands og breskri utanríkisstefnu í Mið-Austurlöndum. Eftir tvö ár utan þings varð hann fjármálaráðherra í íhaldsstjórn Stanley Baldwin sem kom sterlingspundinu aftur á gullfót 1925, sem skapaði kreppuástand í bresku efnahagslífi.

Á „öræfaárunum“ á 4. áratugnum leiddi Churchill baráttuna fyrir því að byggja upp hernaðarmátt Bretlands að nýju til að svara vaxandi hernaðarhyggju Þýskalands undir stjórn nasista. Þegar Síðari heimsstyrjöld braust út var hann aftur skipaður flotamálaráðherra og varð forsætisráðherra eftir að Neville Chamberlain sagði af sér í maí 1940. Churchill hafði yfirumsjón með þátttöku Breta í baráttu bandamanna gegn sókn Öxulveldanna, sem lauk með sigri þeirra árið 1945. Eftir ósigur Íhaldsflokksins í kosningunum 1945 varð Churchill leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Í skugga kalda stríðsins varaði hann við því að „járntjald“ væri að leggjast yfir Evrópu. Hann var talsmaður Evrópusamvinnu og náins samstarfs við Bandaríkin, auk þess að styðja viðgang Breska heimsveldisins. Hann tapaði kosningunum 1950 en sneri aftur til valda eftir kosningar 1951. Annað tímabil hans sem forsætisráðherra tóku utanríkismál og málefni heimsveldisins mestan tíma hans. Stjórn hans lagði áherslu á húsnæðismál innanlands og þróun kjarnorkuvopna. Churchill sagði af sér embætti forsætisráðherra 1955 vegna versnandi heilsu, þótt hann sæti áfram sem þingmaður til 1964. Útför hans 1965 var kostuð af ríkinu.

Churchill er almennt álitinn einn af mikilvægustu stjórnmálamönnum 20. aldar. Hans er einkum minnst fyrir leiðtogahlutverk sitt í Síðari heimsstyrjöld þar sem hann lék lykilhlutverk í að verja frjálslynt lýðræði í Evrópu gegn útbreiðslu fasisma. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir framgöngu sína í stríðinu, sérstaklega fyrir sprengjuárásina á Dresden 1945, en líka fyrir skoðanir sínar á heimsvaldastefnu Breta, kynþáttum og mannkynbótum.


From Wikipedia, the free encyclopedia · View on Wikipedia

Developed by Nelliwinne